Á stuðningshópfundum er venjan að einstaklingurinn standi upp og segi, Halló, ég heiti Jón eða Sigga og ég er ____________(settu inn þá greiningu sem á við: þunglyndi, geðhvarfasýki, alkóhólisti, kókaínisti, meðverkandi, einhverfur, geðklofi, o.s.f)
Í augum ríkisins, lækna, Tryggingarstofnunnar og lífeyrissjóða sem mynda “kerfið” erum við ekki lengur persónur. Við erum kvilli eða sjúkdómur. Tryggingarstofnun og lífeyrissjóðir skaffa okkur bætur einungis ef við höfum verið vandlega skilgreind og flokkuð með einhvern sjúkdóm.
Gagnvart læknum og öðrum stofnunum erum við ekki einungis kvilli eða sjúkdómur heldur erum við einnig númer. Þeir nota tölulegan kóða fenginn úr þykkri bók sem gengur undir nafninu “Fjölþjóða flokkunarkerfið um sjúkdóma”, á ensku “International Classification of Diseases (ICD)”. Þetta kerfi er síðan notað til að flokka okkur eftir kvilla eða sjúkdómi.
Í einu af lögum sínum syngur Bob Seeger um það hvernig honum líður eins og númeri. Lagið endar svo þar sem hann syngur “ég er ekki númer”. Á sama hátt erum við ekki númer frekar en við erum sjúkdómsgreining, sjúkdómur né kvilli. Við erum fyrst og fremst fólk.
Það er erfitt að halda í okkar einstaklingseðli sem persónur í kerfi sem er hannað til að flokka okkur með öðrum persónum sem eru haldin sama sjúkdómi. Það er komið fram við okkur eins og við séum öll eins sama hvaða sjúkdóm við eigum við að stríða, hvort sem það er þunglyndi, geðhvarfasýki eða geðklofi o.s.frv. Á endanum er hætta á því að við förum að trúa því að við séum ekkert meira en gangandi sjúkdómur og að við missum trúna á okkur sjálf.
Ef við opnum augu okkar, skoðum hvað kerfið er að gera okkur, mun okkur langa að opna gluggana og öskra “Ég er reiður, ég búinn að fá nóg og líð ekki þetta ástand lengur”.
Staðreyndin er sú að það er kominn tími til að segja hingað og ekki lengra. Við erum ekki sjúkdómur eða kvilli. Við erum fólk með sjúkdóm en ekki sjúkdómur í formi fólks.
Stundum líður mér eins og ein af þessum stóru ferðatöskum sem sjá má í gömlu svart / hvítu myndunum með merkimiða út um allt sem sýna alla þá staði sem viðkomandi hefur farið til. Svo margir eru merkimiðarnir að það sést ekki lengur í töskuna sjálfa. Þungi kerfisins sem útdeildir þessum merkimiðum er að draga okkur niður jafn mikið og sjúkdómarnir sem við erum að takast á við.
Í næsta skipti sem einhver spyr “hver er greiningin þín?”, skaltu koma viðkomandi á óvart og svara “ég er greindur sem mannleg vera”. Á næsta hópfundi skaltu standa upp og segja “halló, ég heiti Sigga og ég hef gaman af rómantískum sögum. Ég þjáist einnig af krónísku þunglyndi. Segðu þeim svolítið af sjálfri þér. Láttu þau vita að þú sért heilsteypt manneskja og hvernig sjúkdómurinn snertir þig sem persónu.
Það eru ekki peningar né samfélagsleg staða sem gera manninn að því sem hann er. Takið móður Teresu sem dæmi. Hún var elskuð og virt af miljónum manna vegna starfa hennar í fátækustu og sýktustu hlutum heimsins. Staðir sem hinir ríku og frægu myndu aldrei þora að stíga fæti á. Hún sjálf hafði unnið heiti að vera fátæk og hennar eina umbun var andleg ekki fjárhagsleg.
Samt, ef móðir Teresa væri sett inn í “kerfið” yrði hún líklega greind með ýmsa geðsjúkdóma, t.d. þráhyggju-áráttu truflun, mikilmennskubrjálæði-reynandi að koma í veg fyrir fátækt, sjúkdóma og þjáningu í heiminum. Þegar allt kemur til alls, þá er það einfaldlega ekki eðlilegt að reyna að hjálpa öðrum bara vegna ánægjunnar eða þess innri friðar sem það veitir.
Móðir Teresa gæti auðveldlega verið greind sem mesta “meðvirka” persónan sem hefur gengið um þessa jörð. En við vitum öll hversu kjánalega “kerfið” mundi líta út ef það reyndi að greina móður Teresu og hennar árangur og fórnir sem einhvers konar truflun eða sjúkdóm.
Móðir Teresa er ekki sjúkdómur eða truflun og það erum við ekki heldur. Við tengjumst öll böndum sem gera okkur mannleg. Gleymið þessu aldrei: við erum í fyrsta lagi manneskjur með truflanir og sjúkdóma. Við erum ekki sjúkdómar með mannlega eiginleika. Sem slík eigum við öll skilið að komið sé fram við okkur með virðingu sem manneskjur án sjúkdómsgreiningar.
Við erum meira en þær truflanir eða sjúkdómar sem á okkur herja. Munið það og þá verðum við ávallt skrefi á undan “kerfinu”.